Heilsurannsókn ÍE, LSH og ÞÍH

    Heilsurannsókn Íslenskrar erfðagreiningar: Rannsókn á langvinnum áhrifum COVID-19

    Íslensk erfðagreining (ÍE) hefur í samstarfi við Landspítala og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu hafið rannsókn á langvinnum áhrifum COVID-19. Rannsóknin er hluti af Heilsurannsókn ÍE sem 14 þúsund Íslendingar hafa tekið þátt í.

    Í upphafi verður þeim sem greindust með COVID-19 í fyrstu bylgju sjúkdómsins á Íslandi boðin þátttaka. Þátttakan felst í að svara spurningalista á netinu og komu í Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna (ÞR) í Kópavogi þar sem eftirfarandi próf og mælingar fara fram: 


    • Spurningar um einkenni (Daglegt líf og líðan eftir COVID-19)
    • Líkamssamsetning mæld með DXA
    • Hugræn verkefni sem meta meðal annars einbeitningu og minni
    • MINI-geðskimun
    • Stutt heyrnarmæling (skimun)
    • Augnbotnamyndataka (OCT)
    • Lyktarpróf og bragðpróf
    • Raddmæling
    • Mæling á gripstyrk
    • Taugaleiðnipróf
    • Öndunarmæling
    • Hjartalínurit
    • Áreynslupróf sem mælir afkastagetu lungna, hjarta og vöðva

     

    Blóðprufa er tekin hjá öllum þátttakendum meðal annars fyrir raðgreiningu á erfðaefni þeirra, SARS-CoV-2 mótefnamælingu og aðrar ónæmisrannsóknir. Þátttakendum er einnig boðið að taka þátt í svefnrannsókn með heimasvefnmælingu. Rannsóknin í ÞR tekur um 4 klukkustundir og að henni lokinni  fá þátttakendur afhentar valdar niðurstöður í viðtali við lækni eða hjúkrunarfræðing.

    Um 1800 manns greindust með COVID-19 í mars/apríl 2020. Þeim þeirra sem hafa náð 18 ára aldri verður boðin þátttaka. Rannsóknin er tímafrek og boð verða send í skömmtum.

    Þátttakendum með einkenni eða mæliniðurstöður sem gefa tilefni til frekari uppvinnslu eða þörf á eftirliti eða endurhæfingu verður vísað til heilsugæslunnar. Þátttakendum sem reynast með frávik í MINI-geðskimun verður boðið að taka þátt í framhaldsrannsókn á vegum Engilberts Sigurðssonar geðlæknis. Sérnámslæknar í geðlækningum munu hringja í þá sem þekkjast boðið og framkvæma nánara mat á geðrænum einkennum, auk þess að veita ráðgjöf.

    Þegar um 100 einstaklingar hafa tekið þátt í rannsókninni verða niðurstöður metnar og kynntar.

    Það er einnig fyrirhugað að bjóða einstaklingum sem hafa ekki greinst með COVID-19, en hafa áður tekið þátt í Heilsurannsókn ÍE, að svara spurningalistanum Daglegt líf og líðan eftir COVID-19 á netinu, til að hafa viðmið fyrir einkenni þeirra sem fengu COVID-19.

    Upplýsingar um Heilsurannsókn ÍE má finna á heilsurannsokn.is