Um offitu barna
Offita er ástand þar sem uppsafnaður fitumassi truflar starfsemi fituvefjarins og annarra vefja í líkamanum. Skilgreining offitu sem sjúkdóms hefur valdið deilum sem enn standa. Það er hins vegar að verða ljóst eftir því sem þekkingu okkar fleygir fram og dýpkar að offita er langvinnur sjúkdómur sem hefur tilhneigingu til að staðna og versna á víxl. Algengi hefur vaxið víðast hvar í heiminum á undanförnum áratugum og Ísland er ekki undanskilið þeirri þróun. Hér á landi hefur hlutfall barna með offitu hækkað á síðustu 6 árum. Orsakir þessarar þróunar, uppruna, meingerð og meðferðarúrræði hafa mikið verið rannsakaðar. Ný þekking verður sífellt til sem gerir fagið líflegt og skemmtilegt fyrir þá sem þar starfa.
Þótt vitað sé að erfðir eigi stóran þátt í þróun offitu eiga lönd þar sem offita fer vaxandi það sameiginlegt að kerfislægar breytingar hafa orðið á matarvenjum og matarvali. Sameiginlegur þáttur þar er hið svokallaða vestræna mataræði, þar sem matariðnaður stýrir mikið til framboði matvæla, frekar en nærumhverfi. Eins hefur vinnuumhverfi og störf breyst mikið þannig að líkamlega erfið vinna hefur minnkað mikið, en kyrrsetustörfum fjölgað. Hið sama er að gerast í frítíma barna og fullorðinna. Enn annar áhrifaþáttur er að Íslendingar sofa of stutt, bæði börn og fullorðnir. Breytingar af þessari stærðargráðu á samfélögum virðast hafa átt sér stað í flestum samfélögum þar sem offita hefur aukist. Þær hafa áhrif á bæði þá sem fá offitu og þá sem ekki fá offitu, en mismunurinn í viðbrögðum einstaklinga hafa skapað þá skynvillu að offita sé sjúkdómur sem verði til vegna skorts á viljastyrk. Áður en þekking okkar dýpkaðist voru bæði leikmenn og lærðir að reyna að útskýra mikla aukningu í algengi offitu án þess að skilja þetta sjúkdómsástand til fulls. Það olli því að til urðu mýtur og fordómar í garð hópa af fólki vegna of grunnrar þekkingar á meingerð offitu.
Sambærileg þróun hefur áður átt sér stað, til dæmis með geðsjúkdóma, en líka á öldum áður. Til dæmis var Svartidauði mikil ógn við líf og limi og mikil hræðsla greip um sig. Orsakanna var leitað í guðdómnum eða í hugsanlegri illri hegðun einstaklinganna sem pestina fengu. Í dag vitum við að orsökin er Yersinia Pestis og hægt er að meðhöndla hana með sýklalyfjum.
Meðan læknavísindin reyna að skilja ákveðinn sjúkdóm og undirliggjandi meingerð hans, verða alltaf einstaklingar sem vilja notfæra sér aðstæður til frægðar eða fjár, nema hvoru tveggja sé. Eftir því sem þeim fjölgar sem hafa tiltekinn sjúkdóm, þeim mun fleiri geta hagnast á ástandinu. Þannig hefur verið ástatt fyrir börn og fullorðna með offitu í nokkra áratugi. Það er nýlega sem við erum að færast nær læknisfræðilegri vissu um hvað veldur offitu og hverju hún veldur. Ein af meginástæðum þess að þetta ástand hefur viðhaldist svo lengi er að gjá er milli annars vegar þekkingar heilbrigðisstarfsfólks, stjórnenda í samfélaginu og þeirra sem leiða umræðu í samfélaginu og hins vegar þess vísindalega grunns sem þegar hefur safnast um offitu. Þetta ástand hefur takmarkað mjög aðgengi að góðri meðferð við offitu, meðan það er endalaus aðgangur að svo kallaðri "sjálfs-hjálp". Og vegna þeirrar gjáar sem er í þekkingunni verða þeir sem eru með offitu oft fyrir fordómum og mismunun bæði utan frá og frá sjálfum sér. Það eitt og sér getur aukið og ýkt margar neikvæðar afleiðingar offitunnar.
Mannslíkaminn býr yfir mjög öflugum varnarviðbrögðum til að verja orkubirgðir sem hann hefur náð að safna. Því hafa margir sem reynt hafa að minnka fitumassa sinn lent í að fá bakslag, jafnvel endurtekið. Fyrir nokkrum áratugum var ekkert þekkt varðandi skýringar á þessu en uppgötvun hormónsins Leptins seint á síðustu öld breytti því. Í framhaldi hefur mikið af rannsóknum verið gert á þessu sviði og heilt, áður óþekkt kerfi sem stýrir seddu og svengd verið uppgötvað og skilgreint. Enn fremur er vitað að fitufruman sem talin var heldur einföld fruma, reynist framleiða hundruði efna sem senda skilaboð til annarra fruma um allan líkamann. Eins les hún skilaboð frá öðrum frumum. Þetta flókna kerfi seddu, svengdar og birgðastjórnunar, getur bilað eins og önnur kerfi mannslíkamans. Læknisfræðin hefur aldalanga sögu af því að meðhöndla ýmsa kvilla og sjúkdóma í kerfum líkamans. Séu þeir ekki meðhöndlaðir getur það leitt til truflunar á starfsemi í öðrum kerfum líkamans. Offita er sannarlega ekki öðruvísi hvað þetta varðar og í ljósi þess að allar frumur líkamans þurfa að stýra orku og orkubirgðum, þarf ekki að koma á óvart að afleiðingar offitu geta fundist víða, ef ekki um allan mannslíkamann.
Með vaxandi algengi offitu vex einnig algengi afleiðinga hennar. Kostnaðurinn við offitu er stöðugt til umræðu og eins kostnaður við meðferð og forvarnir. Ýmsir hagaðilar geta haft hag af óbreyttu ástandi í samfélaginu og matarumhverfinu og er það stundum hamlandi þáttur þegar verið er að stuðla að heilbrigðara umhverfi. Þeir sem hafa hag af lækkun á algengi offitu eru ekki endilega þeir sömu, sem skapar ákveðna tregðu til að greiða óhjákvæmilegan kostnað við meðferð offitu þrátt fyrir að vísindin styðji betur og betur við að meðferð sé hagkvæm og gagnleg. Á þetta við um bæði lyfja- og skurðmeðferðir.
Á endanum munu það verða forvarnir sem snúa við þeirri óheillaþróun sem hækkandi algengi offitu er. Stærðargráðan af breytingum sem þarf að verða á samfélögum til að skila raunverulegri fækkun meðal þeirra sem greinast með offitu er slík, að hún verður á ábyrgð stjórnmálanna á næstu áratugum. Þær milljónir manna í heiminum og þær þúsundir barna á Íslandi sem þegar eru með offitu munu engu að síður þurfa meðferð við því ástandi til lengri tíma. Því þurfum við að fræða og styðja við nægilegan fjölda heilbrigðisstarfsmanna til að klára það verkefni. Þessar klínísku leiðbeiningar eru hugsaðar sem skref í þá átt.
1. Nanda, S., et al., Obesity Management Education Needs Among General Internists: A Survey. J Prim Care Community Health, 2021. 12: p. 21501327211013292.
2. Zhang, Y., et al., Positional cloning of the mouse obese gene and its human homologue. Nature, 1994. 372(6505): p. 425-32.