Samkvæmt núverandi viðmiðum EUCAST (sýklalyfjanæmisstofnun Evrópu) þá eru komnar nýjar skilgreiningar á næmisniðurstöðum S, I og R (New definitions of S, I and R)
Helsta breytingin felst í skilgreiningu á niðurstöðum sem eru "I".
- Áður þýddi „I“ = „intermediate“, sem var óljóst hugtak sem gaf til kynna óvissu um notagildi sýklalyfs og innihélt nokkrar skilgreiningar (m.a. óvissa í mælingu á rannsóknarstofu eða næmt með hærri skammti)
- Nú þýðir "I" að bakterían er næm (Susceptible, Increased exposure), svo lengi sem hægt er að auka þéttni sýklalyfs (oftast með því að nota hærri skammt – upplýsingar um þetta má finna í kaflanum „Skammtastærðir sýklalyfja“ í Sýklalyfjaleiðbeiningum LSH - Microguide)
Nú á eftirfarandi athugasemd að koma sjálfkrafa á öll svör frá Sýkla- og veirufræðideildinni þar sem einhver næmisniðurstaða er „I“:
Ný skilgreining á næmisviðmiðum:
Nú er I = "Susceptible, increased exposure" (næmt með hærri þéttni sýklalyfs), sem þýðir að örveran er næm fyrir sýklalyfinu með því skilyrði að aukin þéttni sýklalyfs náist á sýkingarstað, t.d. með hærri skammti, hvernig lyfið er gefið (t.d. oftar eða sem sírennsli) eða með uppsöfnun á sýkingarstað (t.d. útskilnaður í þvagi eða gallvegum). Sjá nánar um skammtastærðir sýklalyfja og S - I - R skilgreiningar í Microguide.
Núverandi skilgreining á S – I – R skv EUCAST:
S - Susceptible, standard dosing regimen (næmt með venjulegri skammtastærð sýklalyfs): Miklar líkur á að sýking svari tiltekinni sýklalyfjameðferð sem gefið er í hefðbundnum skömmtum (standard dosing).
I - Susceptible, increased exposure* (næmt með hærri þéttni sýklalyfs): Miklar líkur á að sýking svari tiltekinni sýklalyfjameðferð með því skilyrði að aukin þéttni sýklalyfs náist á sýkingarstað (t.d. með hærri skammti, hvernig lyfið er gefið eða uppsöfnun á sýkingarstað).
R - Resistant (ónæmt): Miklar líkur á að sýking svari ekki tiltekinni sýklalyfjameðferð sama hvernig lyfið er gefið.
* Með "increased exposure" er átt við aukna þéttni sýklalyfs á sýkingarstað, sem m.a. er hægt að ná fram með hækkuðum skammti sýklalyfs, með því að gefa lyfið á sérstakan hátt (t.d. oftar eða sem sírennsli) eða með uppsöfnun á sýkingarstað (t.d. útskilnaður í þvagi eða gallvegum).
Það má fá frekari upplýsingar um þessar breytingar á heimasíðu EUCAST.