Gulur September 2024

Mynd af frétt Gulur September 2024
30.08.2024

Nú hefst gulur September í annað sinn 1.september 2024. 

Guli dagurinn verður 10.september og hvetjum við öll til þess að taka þátt með gula litnum eins og að klæðast gulu eða bjóða upp á gular veitingar. Dagskráin hefst með opnunarviðburði í Ráðhúsi Reykjavíkur 1.september kl.12. Sjá nánari dagskrá og upplýsingar um gulan September hér

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu tekur þátt í undirbúningshópnum en einnig verður boðið upp á fræðsluerindi á rafrænu formi í hádeginu alla fimmtudaga á meðan á átakinu stendur í samvinnu við Sálfræðingafélag íslands og fagfélag sálfræðinga í heilsugæslu. 

Lögð verður áhersla á að fara yfir bjargráð sem við getum sjálf notað til þess að viðhalda góðri líðan eða ná jafnvægi í líðan. Hægt verður að finna hlekki á fræðsluerindin á vef ÞÍH, á vef sálfræðingafélags íslands og á viðburðum á facebook svæði sálfræðingafélags íslands. 

Fræðsluerindin eru öllum aðgengileg. 

Dagskrá: 

1. Hvað get ég gert til að viðhalda góðri líðan? 
Fræðsluerindi í streymi kl.12:00-12:30 alla fimmtudaga í Gulum September. 

2.  Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 10.október 
Fræðsluerindi í streymi kl.12:00-13:00 í samvinnu við VIRK 
Almenn bjargráð, streita, kulnun ofl. Nánari dagskrá kemur síðar.  

Um gulan September:

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. 
Það er von undirbúningshópsins að Gulur september auki meðvitund samfélagsins um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna - sé til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju. Haustið er valið fyrir átakið vegna þess að Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga er 10. september og Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn er 10. október. 

Lögð verður áhersla á slagorðin; „Er allt í gulu?“, ,,Er allt í gulu á þínum vinnustað?“ og „Er allt í gulu í þínum skóla?“ þetta árið. Áherslur alþjóða geðheilbrigðisdagsins 2024 er á geðheilbrigði á vinnustaðnum, annars vegar á það sem við getum sjálf gert til að viðhalda góðri líðan og hinsvegar á ábyrgð stjórnenda til þess að huga að vellíðan sinna starfsmanna.