Árangursríkari sálfræðiþjónusta

Mynd af frétt Árangursríkari sálfræðiþjónusta
07.03.2023

Á Íslandi hefur uppbygging sálfræðiþjónustu fullorðinna á heilsugæslustöðvum farið fram með ólíkum hætti. Unnið hefur verið að því að samræma verklag og tryggja jafnt aðgengi að árangursríkri sálfræðiþjónustu í heilsugæslu á landsvísu. Á landsbyggðinni hefur verið unnið í teymum og sálfræðingar hafa stuðning af sínum yfirsálfræðingi. Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa sálfræðingar undanfarin ár lýst áhuga á aukinni samvinnu á milli stöðva en þar hafa sálfræðingar yfirleitt verið staðsettir einir á heilsugæslustöðvum. 

Árið 2022 fór fram prufuverkefni þar sem sálfræðiþjónusta fimm heilsugæslustöðva í vesturhluta Reykjavíkur var sameinuð í teymi með sameiginlegum biðlista og fylgst með árangri. Á tímabilinu jókst framleiðni í teyminu og biðlistar styttust eftir allri þjónustu: Fyrstu viðtölum, lágþrepaúrræðum (hópar/rafrænar meðferðir) og gagnreyndri einstaklingsmeðferð. Á tímabilinu styttist einnig biðtími eftir mati og meðferð og hægt var að auka við meðferðarmöguleika. Með þessu móti var hægt að tryggja að aldrei kom rof í þjónustuna á svæðinu, þrátt fyrir að stundum skorti mannafla.

Bæði núverandi og fyrrverandi starfsmenn teymisins lýstu yfir ánægju og áhuga fyrir því að starfa áfram í teymi með þessu fyrirkomulagi. Einnig stendur svæðið vel hvað varðar biðlista í samanburði við aðrar sambærilegar heilsugæslustöðvar. Vel var haldið utan um tölfræði og ársskýrsla birt.  

Niðurstöður þessara tilraunaverkefnis gefa til kynna að það sé hagkvæmara og árangursríkara að skipuleggja þjónustu sálfræðinga í heilsugæslu sem vel skipulögð, sérhæfð teymi með sameiginlegum biðlistum en að þeir starfi einir á heilsugæslustöð. Ársskýrsluna má nálgast hér.