Líkamsþyngd barna á höfuðborgarsvæðinu

Mynd af frétt Líkamsþyngd barna á höfuðborgarsvæðinu
05.04.2013

Skýrsla þessi er uppfærsla á skýrslu sem kom út í apríl 2010 (Stefán Hrafn Jónsson og Margrét Héðinsdóttir, 2010) og aftur árið 2011. Þar sem nýjar mælingar liggja nú fyrir þykir rétt að koma þeim á framfæri. Fyrri rannsóknir, sem byggja á mælingum á hæð og þyngd 9 ára barna á höfuðborgarsvæðinu, sýna að hlutfall barna sem flokkast yfir kjörþyngd jókst mikið frá árinu 1958 til 1998 en nýjar mælingar sýna ekki afgerandi breytingar á síðustu árum á hlutfalli barna sem eru yfir kjörþyngd. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Embætti landlæknis standa að skýrslunni.

Heilsuvernd skólabarna á höfuðborgarsvæðinu hefur frá vetrinum 2002/03 skráð rafrænt í Ískrá mælingar á hæð og þyngd nemenda í 1., 4., 7. og 9. bekk grunnskóla. Fyrsta veturinn var aðeins um að ræða mælingar í nokkrum tilraunaskólum og eru þær ekki birtar í þessari skýrslu. Mælingar í 4. bekk benda til þess að hlutfall barna sem er yfir kjörþyngd sé líklega hætt að aukast eftir mikla aukningu á seinni hluta 20. aldar. Mikilvægt er að hafa í huga að þrátt fyrir traustar mælingar á hæð og þyngd barna þá eru engir árgangar eins og Íslendingar eru ennþá fámenn þjóð. Þess vegna mælast oft breytingar á hlutfalli á milli tveggja ára sem endurspegla ekki endilega langvarandi, undirliggjandi breytingar.

Auk mikilvægi þess að byggja á bestu fáanlegu mælingum á hverjum tíma þá er afar brýnt að nota rétt hugtök í umræðu um líkamsþyngd barna. Umræða um þyngd má heldur ekki skyggja á umræðu um mikilvægi hollrar fæðu og nægrar hreyfingar. Þannig þurfa öll börn að hreyfa sig nægjanlega mikið og borða hollan mat, óháð því hvort þau eru í kjörþyngd eða ekki. Hluta af neikvæðum afleiðingum offitu má rekja til vanlíðanar í kjölfar neikvæðra ummæla sem höfð eru um útlit einstaklinga og hópa (Puhl og Heuer 2010; Muennig, 2008). Því skal ávallt gæta virðingar og umburðarlyndis þegar rætt er um líkamlegt útlit fólks.

Líkamsþyngd barna á höfuðborgarsvæðinu: Niðurstöður úr Ískrá á þyngdar og hæðarmælingum barna frá 2003/04-2011/12