Störf sjúkraþjálfara í heilsugæslu kynnt fyrir sjúkraþjálfurum

Mynd af frétt Störf sjúkraþjálfara í heilsugæslu kynnt fyrir sjúkraþjálfurum
02.10.2025

Félagsmönnum í Félagi sjúkraþjálfara var í síðustu viku boðið að koma og hlýða á erindi um störf sjúkraþjálfara í heilsugæslu. Mikill áhugi var á fundinum og góðar umræður mynduðust meðal viðstaddra um störfin, áskoranir og tækifæri. 

Störf sjúkraþjálfara hafa breyst mikið frá því þeir komu inn í heilsugæsluna með innleiðingu hreyfiseðils fyrir um það bil 10 árum. Nú starfa sjúkraþjálfarar víðs vegar um landið við hreyfiseðil, stoðkerfismóttökur, byltuforvarnir, skólaheilsugæslu, mæðravernd, starfsendurhæfingu og heilsuvernd starfsmanna ásamt því að taka þátt í teymisvinnu t.d. í geðheilsuteymum og endurhæfingarteymum. Mjög misjafnt er á milli landshluta og heilsugæslna hvaða verkefnum sjúkraþjálfarar sinna en ásamt hreyfiseðli hafa stoðkerfismóttökur verið mest áberandi. 

Stöðugildi sjúkraþjálfara í heilsugæslu í dag eru um 7-8 á landsvísu, þeim er sinnt af um 25 sjúkraþjálfurum og eru sjúkraþjálfarar því á flestum stöðum í litlum stöðugildum, allt frá 5%. 

Framtíðin er spennandi með tilkomu fleiri stétta inn í heilsugæsluna og það virðist vera áhugi meðal sjúkraþjálfara að taka þátt í því að efla þjónustuna með sinni aðkomu. 

 

Á myndinni hér að ofan má sjá Örnu Steinarsdóttur sjúkraþjálfara á ÞÍH og Gunnlaug Má Briem formann Félags sjúkraþjálfara