Kjarnagildin í heimilislækningum á alþjóðavísu

Mynd af frétt Kjarnagildin í heimilislækningum á alþjóðavísu
30.09.2025

Á alþjóðaþingi samtaka heimilislækna (Wonca World), sem haldið var í Lissabon 17.-21. september s.l. var kynnt ný bók um kjarnagildin í heimilslækningum á alþjóðavísu.

Ritstjórar eru Anna Stavdal, Noregi og fyrrverandi forseti Wonca World, Jóhann Ágúst Sigurðsson, prófessor emeritus í heimilislækningum og Felicity Goodyear-Smith prófessor, Nýja Sjálandi. Ritstjórar hafa meðal annars haldið fundi á Íslandi og kynnt aðdraganda og undirbúningsvinnuna fyrir stjórnendum HH og ÞÍH. Þessi þróunarvinna hefur verið studd af Þróunarstofu og Vísindasjóði Félags íslenskra heimilslækna.

Það er all nokkur aðdragandi að þessu verki og sagan reyndar stórmerkileg með tilliti til áhrifamáttar og samvinnu norrænna heimilislækna. Árið 2001 samþykkti Félag norskra heimilislækna (NSAM, síðar NFA), þá undir stjórn Önnu Stavdal, helstu grundvallaratriði, vinnureglur og siðfræðileg markmið félagsins, sett fram í 7 liðum eða „Sju teser“ og auglýst í formi veggspjalds. Félag danskra heimilislækna (DSAM), fór að dæmi þeirra og gaf út svipað plagg árið 2016, sem nefndist „Pejlemærker for faget almen medicin“. Veggspjaldinu var einnig snúið á íslensku. Jóhann tók við forystu samtaka norrænu heimilislæknafélaganna (Nordic Federation of General Practice) 2017, sem síðar náði samstöðu um enska útgáfu sama efnis „Core values and principles of Nordic general practice/ family medicine“ árið 2020. Skemmst er frá því að segja að sú fyrirmynd var síðan samþykkt af Evrópusamtökunum (Wonca Europe) með viðeigandi breytingum árið 2023. 

Wonca World er skipt í sjö svæði (Wonca regions) eftir heimsálfum. Í þessari bók skrifa fjórir til fimm leiðtogar í hverju svæði um stöðu heimilislækninga, markmið og framtíðarsýn á sínu svæði. Þannig fæst allgóð heildarmynd af stöðu þessara mála á landsvísu, svæðisbundið og á heimsvísu með það að markmiði að greina hvort og hvar samhljómur sé til staðar og hvar gildin séu breytileg miðað við menningu og aðstæður á hverju svæði fyrir sig. Líta ber á markmiðin sem framhald af skilgreiningu WHO á heilsugæslu og markmiði um alhliða heilbrigðisþjónustu. Auk þess er bent á að öflug heilsugæsla sé nauðsynlegur og besti valkostur heilbrigðisþjónustu til að ná flestum af 17 Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna („ Sustainable Developmental Goals“)

 

Myndin hérna efst er frá kynningu bókarinnar á þinginu í Lissabon. Ritstjórar Anna Stavdal tv. og Jóhann Ágúst ásamt Sigríði Dóru Magnúsdóttir og Elínborgu Bárðardóttir. Á myndina vantar einn af ritstjórum bókarinnar, Felicity Goodyear-Smith.