Í nýjum lyfjalögum sem tóku gildi 1. janúar 2021 er að finna ákvæði í 52. grein þar sem fram kemur að Lyfjastofnun geti heimilað lyfjafræðingum að breyta ávísuðu lyfi í undanþágulyf í sérstökum tilvikum þegar skortur er á markaðsettu lyfi.
- 52. gr. Útskiptanleiki lyfja
- Við afgreiðslu lyfjaávísunar í lyfjabúð er lyfjafræðingi heimilt að breyta ávísun læknis í annað lyf í sambærilegu magni og lyfjaávísun hljóðar upp á, en þó aðeins ef lyfið er að finna á skiptiskrá Lyfjastofnunar, sbr. 4. mgr.
- Í sérstökum tilvikum, þegar skortur er á markaðsettu lyfi, getur Lyfjastofnun heimilað lyfjafræðingi að breyta lyfjaávísun í undanþágulyf, enda sé slík heimild veitt að undangengnu mati stofnunarinnar á öryggi við slíka breytingu.
- Lækni sem ávísar lyfi, sbr. 48. gr., er heimilt að takmarka heimild lyfjafræðings skv. 1. mgr.
- Lyfjastofnun skal halda úti og birta á vef sínum skiptiskrá þar sem samheitalyfjum, líftæknilyfjahliðstæðum og lyfjum sem hafa sambærileg meðferðaráhrif er raðað saman.
Heimild þessi var nýtt í fyrsta skipti í apríl 2021. Síðan þá hefur Lyfjastofnun veitt þessa heimild í allmörg skipti. Fréttir eru birtar á heimasíðu Lyfjastofnunar þegar fyrrgreind heimild er nýtt að auki eru lyfjafræðingar í apótekum látnir vita með sérstökum skilaboðum.
Þá er ábyrgðin á að upplýsa lyfjanotendur komin til lyfjafræðingsins. Lyfjafræðingar skulu upplýsa lyfjanotendur um að lyfið hafi ekki íslenskt markaðsleyfi þegar þeir nýta þessa heimild, ásamt því að gera grein fyrir mögulegum aukaverkunum og öðrum upplýsingum sem kunna að vera nauðsynlegar við notkun lyfsins.
Hægt er að nálgast lyfjaskortsfréttir inni á: Lyfjaskortsfréttir - Lyfjastofnun
Jafnframt er hægt að finna öll lyf í skorti og hvaða úrræði eru í boði á: Tilkynntur lyfjaskortur - yfirlit - Lyfjastofnun