Klínískir lyfjafræðingar til heilsugæslunnar

Mynd af frétt Klínískir lyfjafræðingar til heilsugæslunnar
21.09.2021

Landspítalinn og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) hefja samstarf um klíníska lyfjaþjónustu 

HH og lyfjaþjónusta Landspítala hafa gert með sér þjónustusamning um nýjung í klínískri lyfjafræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Um er að ræða samstarfsverkefni til eins árs, sem felst í því að þrír klínískir lyfjafræðingar í lyfjaþjónustu Landspítala munu veita skjólstæðingum Heilsugæslunnar klíníska lyfjaráðgjöf á fimm heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Verkefni lyfjafræðinganna verður einkum að fara yfir lyfjalista hjá skjólstæðingum á mörgum lyfjum með það markmið að draga úr lyfjatengdum vandamálum, sem eru oft orsök sjúkrahúsinnlagnar, valda heilsutjóni og stundum miklum kostnaði fyrir samfélagið.

Samningurinn kveður á um stöðugildi eins klínísks lyfjafræðings og taka þrír lyfjafræðingar frá lyfjaþjónustu Landspítala þátt í verkefninu, þau Elísabet Jónsdóttir, Eva María Pálsdóttir og Pétur Sigurður Gunnarsson. Lyfjafræðingarnir munu nánar tiltekið starfa einn dag í viku á Heilsugæslunum Efra-Breiðholti, Efstaleiti, Mjódd, Seltjarnarnesi og Vesturbæ og á Sólvangi. Skjólstæðingar á þessum fimm heilsugæslustöðvum geta nálgast þjónustuna gegnum sinn heimilislækni.

„Rannsóknir hafa sýnt að í langflestum tilvikum hefði mátt koma í veg fyrir lyfjatengd vandamál með vandaðri lyfjayfirferð. Klínískir lyfjafræðingar geta verið lykilaðilar í að auka gæði og öryggi í lyfjamálum einstaklinga í heilsugæslu. Jafnframt munu klínísku lyfjafræðingarnir veita ráðgjöf til einstaklinga og heilbrigðisstarfsmanna og taka þátt í ýmsum gæðaverkefnum innan heilsugæslunnar. Við erum ákaflega spennt fyrir þessu verkefni,“ segir Anna Bryndís Blöndal lyfjafræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Landspítali er framar mörgu öðru þjóðarsjúkrahús og við hjá spítalanum tökum það hlutverk okkar mjög alvarlega. Aukin samþætting íslenskrar heilbrigðisþjónustu er eitt af stærri verkefnum samfélagsins og það er fagnaðarefni að lyfjaþjónusta Landspítala geti lagt sitt af mörkum í þeim efnum. Jafnframt er frábært að með þessu geta spítalinn og heilsugæslan tekið höndum saman í að efla þjónustu við viðkvæman hóp elstu skjólstæðinga íslenskrar heilbrigðisþjónustu og halda áfram að efla lyfjaöryggi á landsvísu,“ segir Arnþrúður Jónsdóttir deildarstjóri lyfjaþjónustu hjá Landspítala.

 

  

Frá vinstri: Elísabet, Eva María og Pétur Sigurður