Viðhorf foreldra til heimavitjana í ung- og smábarnavernd

Mynd af frétt Viðhorf foreldra til heimavitjana í ung- og smábarnavernd
22.06.2021
Heimavitjanir hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd miða að því að veita foreldrum aðstoð og ráðgjöf eftir fæðingu barns, á tíma sem er oft viðkvæmur foreldrunum. Viðhorf foreldra til ung- og smábarnaverndar er lítt þekkt hérlendis og gefa niðurstöður rannsóknar sem var gerð innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins árið 2020 vísbendingar um að heimavitjanir hjúkrunarfræðinga séu vel metnar af foreldrum.  Niðurstöðurnar ríma vel við niðurstöður á erlendum rannsóknum um að heimavitjanir hafi jákvæð áhrif á foreldra. 
 
Meirihluti þátttakenda var ánægður með heimavitjanir hjúkrunarfræðinga, fjölda þeirra og lengd. Huga þarf sérstaklega að þörfum foreldra með fyrsta barn þar sem þeir voru marktækt óánægðari með aðstoð og ráðgjöf sem þeir fengu en foreldrar sem höfðu eignast barn áður. Óánægja foreldranna sneri meðal annars að aðstoð og ráðgjöf varðandi brjóstagjöf en rannsóknir sýna að mæður með fyrsta barn telja brjóstagjöf valda þeim mestri streitu og að ráðgjöf varðandi brjóstagjöf sé samofin aðlögun þeirra að foreldrahlutverkinu. Fræðsla hjúkrunarfræðinga um umönnun barns, tengslamyndun og andlega líðan mæðra virðist vera gerð fullnægjandi skil í heimavitjunum í ung- og smábarnavernd samkvæmt rannsókninni. 
 
Rannsóknarniðurstöðurnar ber að túlka í ljósi þess að bakgrunnur þátttakenda var frekar einsleitur. Það væri því mikilvægt að endurtaka rannsóknina síðar í þeim tilgangi að ná til breiðari hóps með því að leggja listann fyrir stærra úrtak á landsvísu, reyna að ná betur til beggja foreldra og einnig til foreldra af erlendum uppruna. 
 
Hægt er að nálgast greinina í Tímariti hjúkrunarfræðinga