Nýtt vinnulag þegar áhyggjur vakna af einhverfu í 18 mánaða skoðun

Mynd af frétt Nýtt vinnulag þegar áhyggjur vakna af einhverfu í 18 mánaða skoðun
19.01.2021

Ung- og smábarnavernd ÞÍH hefur unnið að nýju vinnulagi varðandi það þegar áhyggjur vakna af einhverfu í 18 mánaða skoðun sem hægt er að nálgast hér


Vinnulagið var unnið í samvinnu við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (GRR) og Þroska- og hegðunarstöð HH. Einnig var haft samráð við talmeinafræðinga á Heyrnar- og talmeinastöð ríkisins. Markmiðið er að skerpa á 18 mánaða skoðun í ung- og smábarnavernd og stytta ferlið þegar áhyggjur vakna af einhverfu með því að vísa börnum frá öllu landinu beint til GRR ef ákveðin atriði koma fram í skimunarferlinu. Nýja vinnulagið á eingöngu við þegar grunur vaknar um einhverfu. 


Skimun fyrir einhverfu byggir á teymisvinnu/samvinnu og voru haldin tvö fjölmenn rafræn námskeið i desember 2020 og janúar 2021 fyrir allt fagfólk sem starfar í ung- og smábarnavernd á landsvísu. Annað námskeið í tengslum við eftirfylgdarviðtal sálfræðinga verður síðan haldið í byrjun febrúar 2021. Þar sem ekki er vitað hve mörgum börnum verður hugsanlega vísað til GRR úr ung- og smábarnavernd var ákveðið að þetta yrði tilraunaverkefni og verður vinnulagið endurmetið í október 2021.