Mæðravernd og ung- og smábarnavernd er mikilvæg þjónusta sem ekki er hægt að fella niður en þarf að endurskipuleggja í samræmi við hertar aðgerðir í sóttvörnum.
Meðan núverandi ástand varir mælum við með eftirfarandi fyrirkomulagi á heilsugæslustöðvum okkar, en það getur verið mismunandi eftir aðstæðum hverju sinni.
Mæðravernd:
- Fyrstu skoðanaviðtöl fari fram símleiðis. Það gekk vel í vor.
- 16 vikna skoðun ætti að geta farið fram í síma í flestum tilvikum.
- Stytta tímann sem bein samskipti fara fram í hverri skoðun. Þær skoðanir sem þurfa að fara fram á stöðvunum myndu byggja á mati ljósmóður og konunnar hver yrði áherslan í skoðuninni á stöðinni og síðan væri hægt að afgreiða fræðslu og upplýsingahluta í gegnum síma.
- Konur koma einar í skoðanir á stöðina og alls ekki koma ef minnsti grunur um veikindi, þá hringja.
Ung- og smábarnavernd:
- Einungis eitt foreldri mæti með barnið í skoðanir í ung- og smábarnavernd.
- Hjúkrunarfræðingar fara í heimavitjanir miðað við þarfir fjölskyldunnar. Ef hægt er þá er farið í a.m.k. eina heimavitjun og hjúkrunarfræðingur er síðan í reglulegu sambandi við foreldra í gegnum síma.
- Barn komi í 6 vikna skoðun á heilsugæslustöð. Hjúkrunarfræðingur skimar fyrir þunglyndi og kvíða hjá móður í 6 vikna skoðun eða í 9 vikna skoðun með símtali.
- Barn fái allar bólusetningar samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis. Mikilvægt er að fresta ekki þeim skoðunum ef mögulegt er.
- Símaviðtal hjúkrunarfræðings í stað skoðunar við 9 vikna aldur, 10 mánaða aldur, 2½ árs aldur, ef þarf sökum álags á stöðvunum. Æskilegt að bjóða upp á 2½ árs skoðun síðar ef hægt er.
- Fresta má 4 ára skoðun eitthvað, en hafa í huga að í þessari skoðun er bæði bólusetning og sjónpróf og því mikilvægt að hún falli ekki niður.
- Símaþjónusta er í boði fyrir foreldra í sóttkví.
- Mikilvægt að veikt foreldri mæti ekki með barn í ung- og smábarnavernd.
Hafa verður í huga að fyrirvaralaust geta aðstæður breyst á einstökum heilsugæslustöðvum þannig að fresta verður viðtölum og/eða vitjunum.