Saman gegn heimilisofbeldi

Mynd af frétt Saman gegn heimilisofbeldi
18.06.2020

Heimilisofbeldi er því miður allt of algengt, það er oft falið og erfitt að átta sig á því. Heimilið nýtur friðhelgi og innan veggja þess geta gerst hlutir sem fara algjörlega framhjá öðrum. Heimilisofbeldi getur aukist við erfiðar aðstæður eins og eru í samfélaginu nú. Tökum eftir og bjóðum fram aðstoð. Leyfum börnum að njóta vafans. Tilkynnum til barnaverndar. Fram hefur komið að í ár fjölgaði tilkynningum um heimilisofbeldi þar sem börn koma við sögu hlutfallslega mjög mikið milli mánaða og hafa ekki verið fleiri í upphafi árs í rúman áratug.

Mikilvægt að leita aðstoðar 

Leitaðu aðstoðar ef þú óttast að verða fyrir ofbeldi eða ef þig grunar ofbeldi einhvers staðar. Leitaðu aðstoðar ef þú óttast að missa stjórn eða að þú beitir ofbeldi. Enginn hefur rétt á að meiða á nokkurn hátt, að bregðast við slíku er mikilvægt. Ofbeldi getur verið margs konar, andlegt, líkamlegt, fjárhagslegt, kynferðislegt og félagslegt. Sjá nánar á www.heilsuvera.is. Hjá heilsugæslunni eru starfandi hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, sálfræðingar og læknar sem geta aðstoðað og veitt stuðning.

Koma með áverka annan hvern dag 

Rannsóknir sýna að á Landspítalann kemur kona með áverka eftir heimilisofbeldi annan hvern dag. Heimilisofbeldi hefur gríðarleg áhrif á heilsufar viðkomandi, bæði líkamlegt og sálrænt. Skömm og sektarkennd eru algengar tilfinningar sem geta hindrað þolendur í að leita sér aðstoðar. Eftir því sem heimilisofbeldið er alvarlegra og því lengur sem það stendur yfir hefur það meiri áhrif á þolandann. Því skiptir miklu máli að leita hjálpar sem fyrst. Áhrif á sálræna heilsu eru mikil og langvinn og geta verið kvíðaraskanir, þunglyndi, fíkn, mikil þreyta og orkuleysi, svefntruflanir. Líkamleg einkenni geta verið höfuðverkjaköst, bakverkir, brjóstverkir, kynsjúkdómar og fleira.

Heimilisofbeldi getur haft mikil áhrif á börn og þar með talin börn sem eru enn í móðurkviði. Sýnt hefur verið fram á að áföll í móðurkviði geta haft áhrif á heilaþroska barns. Ofbeldi á meðgöngu getur aukið tíðni á mörgum meðgöngukvillum, þar á meðal eru: hækkaður blóðþrýstingur, bjúgur, blæðingar,
sýkingar, ógleði og fyrirbura- og léttburafæðingar. Fæðingarþunglyndi er mun algengara hjá konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi á meðgöngu.

Sum börn hljóta mikinn skaða

Afleiðingar heimilisofbeldis á börn eru einstaklingsbundnar og sum hljóta mikinn skaða af meðan önnur spjara sig betur. Það sem skiptir mestu máli er að börnin hafi stuðningsaðila sem þau treysta og geta leitað til, til dæmis góðan ættingja, skólahjúkrunarfræðing eða vin. Heimilisofbeldi getur haft langvinnar og alvarlegar afleiðingar langt fram á fullorðinsár. Dæmi um afleiðingar ofbeldis gagnvart börnum eru lágt sjálfsmat, kvíði, þunglyndi, aukin hætta á langvinnum sjúkdómum, sjálfsvígshugleiðingar og áfengis- og fíkniefnanotkun. Þó svo að heimilisofbeldi beinist ekki að barninu sjálfu hefur það áhrif á líðan þess og þroska, því börn eru sérfræðingar í að finna hvernig andrúmsloftið er á heimilinu.

Við berum öll ábyrgð 

Öll þurfum við að taka ábyrgð og leggja okkar af mörkum til að gera samfélagið okkar betra. Verum góðir grannar og tilkynnum til barnaverndar, ekki bíða og sjá til. Ekki líta fram hjá ofbeldi, láttu vita að hegðunin er ekki í lagi. Hjálpum viðkomandi að leita sér aðstoðar. Nánari upplýsingar má finna á www.heilsuvera.is.

Höfundur er Ástþóra Kristinsdóttir sérfræðiljósmóðir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.