Nú er næringarfræðingur tekinn til starfa á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) en Óla Kallý Magnúsdóttir hóf störf þann 3.febrúar.
Óla Kallý lauk meistaragráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands (HÍ) 2008 og doktorsgráðu frá sama skóla árið 2014. Eftir útskrift hefur hún unnið á Landspítala og á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hefur þar sinnt næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki og um tíma einnig öldruðum.
Óla Kallý er í 50% starfi hjá ÞÍH ásamt því að starfa áfram á Landspítala og sem aðjúnkt við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ.
Hlutverk Ólu Kallý innan ÞÍH er að styðja við starfsfólk og vinna að stefnumótun í málum tengdum næringu og næringarmeðferð innan heilsugæslunnar á landsvísu sem og að sinna vísinda- og gæðaþróunarverkefnum. Jafnframt mun hún vinna að þverfaglegu samstarfi innan heilsugæslunnar með ýmis konar fræðsluefni til næringarfræðinga, annarra heilbrigðisstétta og almennings um næringu og næringarmeðferð, gerð verklagsreglna sem og taka þátt í samstarfsverkefnum. Þá mun hún styðja við heilsueflandi móttökur heilsugæslunnar.
Við bjóðum Ólu Kallý hjartanlega velkomna til starfa á ÞÍH og hlökkum til ánægjuríks samstarfs.