Í dag, 16. október, er alþjóðlegi endurlífgunardagurinn. Af því tilefni var verkefninu „Börnin bjarga“ ýtt formlega úr vör í Víðistaðaskóla nú síðdegis.
Tilgangur „Börnin bjarga“ er að kenna nemendum í 6. til 10. bekk endurlífgun, markvisst og árlega. Megin áhersla er lögð á verklega kennslu sem byggð er á bóklegri fræðslu. Stuðst er við H-in þrjú; HORFA – HRINGJA – HNOÐA. Í verklegu kennslunni er notuð endurlífgunardúkkan Anna.
Skólahjúkrunarfræðingar sjá um kennsluna sem bætist við fjölbreytta skipulagða heilbrigðisfræðslu sem þeir sjá um í öllum bekkjum grunnskóla.
Rannsóknir sýna að slík kennsla eykur fjölda þátttakenda í endurlífgun umtalsvert og bætir lífslíkur í kjölfar hjartastopps utan spítala svo um munar. Markmiðið er að öll börn sem útskrifast úr grunnskóla kunni að bregðast við hjartastoppi og beita hjartahnoði og bjarga þannig mannslífi.
Þetta verkefni er hluti af átakinu Kids save lives, sem Endurlífgunarráð Evrópu (ERC) og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) settu af stað í þeim tilgangi að hvetja allar þjóðir heims til þess að innleiða endurlífgunarkennslu meðal grunnskólanema.
Nýverið var „Börnin bjarga“ kynnt fyrir skólahjúkrunarfræðingum um allt land á fræðslufundi á Þróunarmiðstöð íslenskar heilsugæslu. Meirihluti skólahjúkrunarfræðinga tók þátt og fékk þjálfun í hvernig kenna skal efnið. Verkefnið verður einnig kynnt skólastjórnendum.
Ilmur Dögg Níelsdóttir Heilsugæslunni Firði sem er skólahjúkrunarfræðingur í Víðistaðaskóla þýddi og staðfærði verkefnið í sérnámi sínu í heilsugæsluhjúkrun. Síðan hefur hún unnið að undirbúningi þess, ásamt Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, í samráði við ýmsa aðila, m.a. Rauða krossinn.
Það var því viðeigandi að setja verkefnið formlega af stað í Víðistaðaskóla í dag, að viðstöddum styrktaraðilum og öðrum sem hafa komið að undirbúningnum.
Við þökkum styrktaraðilum kærlega fyrir stuðninginn. Þeir eru; Endurlífgunarráð, Hjartaheill, Neyðarlínan og Thorvaldsensfélagið. Þessir aðilar styrktu kaup á 400 einföldum endurlífgunardúkkum sem hefur verið dreift á heilsugæslustöðvar um allt land. Við þökkum einnig Icepharma sem bauð góða samninga við innkaupin.
Athöfninni í dag lauk með því að nemendur í Víðistaðaskóla sýndu afrakstur kennslunnar. Krakkarnir hafa verið mjög áhugasöm og fljót að ná þeim takti og tilfinningu sem þarf við hjartahnoð og endurlífgun.
Á efri myndinni sýnir Ilmur Dögg réttu handtökin og hér fyrir neðan sýna krakkarnir flotta takta.
Myndin af Ilmi Dögg er birt með góðfúslegu leyfi Morgunblaðsins.