Hiti hjá börnum

Mynd af frétt Hiti hjá börnum
24.09.2019

Er haustkvefið komið á þitt heimili?

Á haustin byrja börnin á leikskólum og í skólum og komast í kynni við nýja stofna kvefveira með þeim afleiðingum að þau verða veik og fá hita. Barn sem er hitalaust en með væg kvefeinkenni getur vel sótt skóla eða farið í leikskólann en sé það með hita ætti það að vera heima.

Mörkin eru mismunandi eftir mælum En hvenær telst barn með hita?

Almennt er talað um að börn séu komin með hita ef líkamshiti þeirra fer yfir 38°C. Mörkin eru mismunandi eftir því hvernig mælir er notaður við að mæla hitann. Holhandarmælar, eyrnamælar eða ennismælar eru auðveldari í notkun heldur en endaþarms- eða munnmælar en þeir eru nákvæmari. Endaþarmsmælir og eyrnamælir eru nákvæmastir. Ef þeir sýna 38°C er barnið með hita. Holhandarmælir er ekki eins nákvæmur og barn sem mælist með 37,2°C á holhandarmæli er með hita. Best er að mæla barn sem er í hvíld.

Börn fá oftast hita af því að þau fá öndunarfærasýkingar eins og kvef eða magapestir. Slík veikindi geta smitast hratt á milli barna á leikskólum og í grunnskólum. Með því að kenna eldri börnunum að þvo sér um hendur eftir salernisferðir og áður en þau borða má draga úr smithættunni. Þau yngri þarf að aðstoða við þetta.

Matarlystin kemur þegar barnið hressist

Margir velta fyrir sér hvort ástæða sé að fara til læknis þegar barn fær hita. Vissulega getur verið full ástæða til þess en í flestum tilvikum eru þessar umgangspestir af völdum veirusýkinga og ekki hægt að ráða niðurlögum þeirra með sýklalyfjum. Gott er að skapa rólegt umhverfi og leyfa barninu að hvílast og sofa þegar það vill, án þess þó að þvinga það til að hvílast. Þó að barn sé með hita getur það verið hresst og leikið sér sem er í góðu lagi.

Oft eru börn lystarlaus þegar þau fá hita en mikilvægt er að þau drekki vel. Við þessar aðstæður er því ágætt að bjóða barninu að drekka það sem því finnst gott og leggja áherslu á að það drekki vel. Matarlystin kemur þegar barnið hressist. Gott er að hafa barnið í léttum og þægilegum fatnaði. Gott er að fylgjast með hitanum eftir þörfum þó ekki sjaldnar en kvölds og morgna ef barnið er veikt. Ef barninu líður illa má gefa því hitalækkandi lyf.

Fáið ráð hjá heilsugæslunni

Ef eitthvað af eftirfarandi einkennum kemur fram ætti að leita til heilsugæslunnar:

  • Hiti hefur varað í 3 sólarhringa og lækkar lítið við hitalækkandi lyf eða ef engin sýnileg ástæða ef fyrir hitanum.
  • Gult hor/slím hefur verið samhliða hitanum í yfir 3 sólarhringa
  • Barnið er með langvinnan sjúkdóm, eins og sykursýki eða flogaveiki
  • Barninu finnst sárt að pissa.
  • Blæðing, útferð eða verkir í leggöngum
  • Uppköst, niðurgangur eða verkir í maga
  • Verkur í eyrum eða hálsi
  • Barnið er með útbrot

Á heilsugæslustöðvum er alltaf hægt að fá ráð og ef foreldrar hafa áhyggjur af veikindum barnsins eiga þeir ekki að hika við að hafa samband á heilsugæsluna sína.

Almenn ráð er líka hægt að fá á netspjalli Heilsuveru en þar eru líka ítarlegri upplýsingar um hita hjá börnum.


Margrét Héðinsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Sesselja Guðmundsdóttir, sviðsstjóri ung- og smábarnaverndar, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu