Dagana 11.-14. júní voru haldnir móttökudagar fyrir nýútskrifaða læknakandídata. Það eru undirbúningsdagar þar sem farið er yfir hagnýt og fagleg málefni áður en þau hefja störf sem læknakandídatar. Kandídatsárið er 12 mánaða starfsnám að loknu læknanámi og skiptist í 4 mánaða starf á heilsugæslustöð og 8 mánaða starf á sjúkrahúsi.
Miðvikudagurinn 12.júní var dagur heilsugæslunnar á móttökudögunum. Haldnir voru fyrirlestrar þar sem fjallað var um réttindi sjúklinga og vottorðagerð, gagnlega og gagnrýna notkun rannsókna og skynsamlega notkun sýklalyfja. Einnig var STRAMA verkefnið kynnt. Þá var fjallað um áverkaskoðun, aðkomu og viðbrögð á slysstað, um hreyfiseðla og síðan að lokum um heilsu og vellíðan lækna. Fyrirlesarar voru allir sérfræðingar í heimilislækningum.
Um sextíu kandídatar mættu á móttökudagana. Fyrirlestrarnir mæltust almennt vel fyrir og umræður voru góðar. Alls útskrifast 88 læknakandídatar á þessu ári, bæði frá HÍ og háskólum erlendis og hafa þau aldrei verið fleiri. Flest þeirra koma til starfa nú í júní en síðan bætist nokkur hópur við í haust og verða móttökudagar haldnir á ný fyrir þann hóp í október.
Það er öflugur hópur læknakandídata sem hafið hefur störf á heilsugæslum landsins nú í sumar. Við bjóðum þau velkomin til starfa.