Skynsamleg notkun sýklalyfja

Mynd af frétt Skynsamleg notkun sýklalyfja
12.03.2019

Tilkoma sýklalyfja fyrir miðja síðustu öld var vafalaust ein helsta byltingin í sögu læknisfræðinnar og lyfin gegna afar mikilvægu hlutverki í nútímaheilbrigðisþjónustu. Á Íslandi eins og annars staðar á Vesturlöndum hefur vægi smitsjúkdóma, bæði hvað varðar sjúkdómabyrði og dánarorsakir, minnkað verulega.

Fljótlega eftir að pensilín kom á markaðinn tók að bera á vaxandi ónæmi ýmissa bakteríustofna. Þessi þróun hefur haldið áfram æ síðan og er þróun ónæmis fyrir sýklalyfjum á heimsvísu mikið áhyggjuefni. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur af þessum sökum hvatt til aðgerða til að sporna við þessari þróun. Hafa verður í huga að engin ný sýklalyf hafa litið dagsins ljós um allnokkurt árabil.

Miklu ávísað á Íslandi

Stór áhrifaþáttur í tilurð og þróun ónæmis fyrir sýklalyfjum er mikil notkun þeirra. Íslenskir læknar hafa í mörg ár ávísað mun meira af sýklalyfjum en starfsbræður þeirra á hinum norrænu löndunum, sérstaklega tilteknum breiðvirkum lyfjum. Árum saman hefur sýklafræðideild Landspítala fylgst með þróun ónæmis og á undanförnum árum hefur m.a. komið fram breyting á næmi algengra öndunarfærabaktería, svokallaðra pneumókokka, fyrir lyfjum sem hafa verið mikið notuð hjá einstaklingum með pensilínofnæmi.

Langflestar ávísanir á sýklalyf eru gefnar út utan sjúkrahúsa og algengustu ástæður meðferðarinnar eru sýkingar í öndunarfærum og eyrum, sýkingar sem mjög oft eru saklausar og hafa mikla tilhneigingu til að lagast án sýklalyfjameðferðar. Veirur valda mörgum þessara sýkinga, en sýklalyf gagnast ekkert gegn veirusýkingum og heilbrigt fólk ræður að jafnaði vel við þær.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hóf fyrir þremur árum, í samstarfi við Sóttvarnalækni og sýklafræðideild Landspítala, vinnu sem hefur að markmiði að stuðla að skynsamlegri ávísun sýklalyfja. Á fyrstu tveimur árum verkefnisins fækkaði ávísunum á tiltekin breiðvirk sýklalyf milli 20 og 30% milli ára og einnig varð nokkur fækkun á heildarávísunum og ávísunum til barna sérstaklega.

Almenningur hér á landi gerir sér vonandi almennt vel grein fyrir mikilvægi þess að nota sýklalyf skynsamlega, bæði vegna hættu á ónæmisþróun almennt, en einnig vegna hugsanlegra aukaverkana eða óheppilegra áhrifa lyfjanna á þann sem notar þau. Vegna þess hve sýklalyfin eru mikilvæg ber okkur öllum, almenningi svo og læknum sem ávísa lyfjunum, að ganga vel um þá mikilvægu auðlind sem þau eru. 

Ráðgjöf í boði

Ef þú, lesandi góður, ert eða verður í vafa um hvort þörf er á mati eða meðferð við sýkingareinkennum geturðu leitað ráðgjafar hjá hjúkrunarfræðingum heilsugæslustöðvanna í síma 1770, sem er opinn allan sólarhringinn, og á slóðinni Heilsuvera.is.

Jón Steinar Jónsson heilsugæslulæknir og Kristján Linnet lyfjafræðingur, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu