Í tengslum við Fræðadaga heilsugæslunnar var haldinn vel heppnaður fræðsludagur um bólusetningar barna, þann 31. október.
Þetta er í annað sinn sem fræðsludagurinn er haldinn en hann er á vegum Embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Stefnt er að því að þetta verði árlegur viðburður.
Fullbókað var á fræðsludaginn í ár, eins og í fyrra, og mættu 190 heilbrigðisstarfsmenn af öllu landinu. Dagskráin var fjölbreytt og umræður líflegar.
Fjallað var um bólusetningar barna frá fjölbreyttu sjónarhorni. Allt frá ávinningi af bólusetningum á Íslandi frá 1888 til 2017 og leiðum til að bæta þátttöku barna í bólusetningum, til þess hvernig bregðast eigi við þegar foreldrum greinir á um bólusetningar barna sinna eða eru hikandi gagnvart þeim.