Embætti landlæknis og Þróunarsvið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins birta nýjar ráðleggingar um næringu ungbarna.
Þetta eru ráðleggingar um næringu barna á fyrsta aldursárinu og ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki sem vinnur við ung- og smábarnavernd og öðrum sem veita leiðbeiningar um næringu ungbarna. Aftast í skjalinu eru birtar algengar spurningar og svör. Ráðleggingar fyrir foreldra koma í kjölfarið.
Ráðleggingarnar í hnotskurn:
- Ráðlagt er að barnið nærist eingöngu á móðurmjólk fyrstu sex mánuðina. Þó er ráðlagt að gefa D-vítamín frá 1–2 tveggja vikna aldri.
- Ef móðurmjólkin ein nægir ekki fyrstu fjóra mánuðina er mælt með að gefa eingöngu ungbarnablöndu sem viðbót við brjóstamjólk. Ef barn yngra en fjögurra mánaða er ekki á brjósti er mælt með að næra það eingöngu á ungbarnablöndu.
- Ef móðurmjólkin ein nægir ekki barni á aldrinum fjögurra til sex mánaða getur það fengið að smakka litla skammta af öðrum mat, jafnvel frekar en að byrja að gefa því ungbarnablöndu. Ef barn nærist eingöngu á ungbarnablöndu við fjögurra mánaða aldur getur það fengið að smakka litla skammta af öðrum mat með.
- Ef börn þurfa mjólk til viðbótar við móðurmjólkina eða í staðinn fyrir hana eftir 6 mánaða aldur er mælt með stoðblöndu, t.d. íslenskri Stoðmjólk.
- Æskilegt er að auka fjölbreytni í fæðuvali tiltölulega hratt eftir 6 mánaða aldur. Þá byrjar barnið að borða annan mat en móðurmjólk og fær litla skammta af mörgum fæðutegundum sem eru stækkaðir smám saman. Ekki er talin ástæða til þess að börn í áhættuhópum fyrir ofnæmi fresti neyslu hugsanlegra ofnæmisvalda.
Ráðleggingarnar eru almennar og eiga við langflest börn. Taka þarf tillit til þroska og getu hvers barns, t.d. hvenær það getur farið að neyta fastrar fæðu. Heilbrigðisstarfsfólk þarf að aðlaga ráðleggingarnar að þörfum hvers barns og fjölskyldu þess.
Helstu kostir brjóstagjafar
Brjóstamjólkin inniheldur, auk næringarefna, ýmis efni sem hafa áhrif á þroska meltingarfæranna og starfsemi þeirra, vaxtarþætti, hormóna og efni sem örva ónæmiskerfið. Brjóstagjöf verndar börn fyrir bráðri eyrnabólgu, sýkingum í meltingarvegi og í neðri hluta öndunarfæra. Einnig eru minni líkur á ofþyngd og offitu hjá börnum og unglingum sem eru lengur eingöngu á brjósti, auk fleiri kosta brjóstagjafar.
Hvenær á að byrja að gefa fasta fæðu?
Við endurskoðun ráðlegginganna var sérstök áhersla lögð á að skoða hvort það væri heilsufarslegur ávinningur af því að byrja að gefa börnum annan mat en móðurmjólk fyrir 6 mánaða aldur.
Niðurstaðan var sú að það væri ekki heilsufarslegur ávinningur af því hjá ungbörnum sem vaxa og dafna eðlilega. Hins vegar geta sum börn haft þörf fyrir að fá annan mat en móðurmjólk/ungbarnablöndu fyrir 6 mánaða aldur.
Frá árinu 2003 hefur verið ráðlagt á Íslandi að börn nærist eingöngu á móðurmjólk fyrstu sex mánuðina. Yfirferð á rannsóknum á þessu sviði leiddi í ljós að ekki væri vísindalegur grunnur fyrir því að breyta þessari ráðleggingu. Hins vegar standa nú yfir rannsóknir hvað varðar brjóstagjöf eingöngu, innleiðingu á fastri fæðu og þróun ofnæmis hjá börnum og verður fylgst náið með niðurstöðum þeirra.
Í samræmi við Norrænar ráðleggingar og ráðleggingar WHO.
Ráðleggingarnar sem eru birtar núna byggja á Norrænum næringarráðleggingum NNR5, nýjustu kerfisbundnu yfirlitum rannsókna, ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), ráðleggingum frá öðrum opinberum stofnunum og ráðleggingum á hinum Norðurlöndunum og víðar.
Ráðleggingarnar voru unnar af faghópi á vegum Embættis landlæknis og Þróunarsviðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sesselja Guðmundsdóttir, sviðsstjóri ung- og smábarnasviðs, er fulltrúi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í faghópnum.