Mánudaginn 31. okt. voru gæðastyrkir Velferðarráðuneytisins 2016 afhentir við athöfn í ráðuneytinu.
Einn þeirra kom í hlut Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, til verkefnis sem starfshópur um skynsamlega, trygga og ábyrga notkun sýklalyfja (STANS) stendur fyrir en Kristján Linnet var umsækjandi.
Í starfshópnum eru auk Kristjáns þeir Oddur Steinarsson, Jón Steinar Jónsson frá HH, Þórólfur Guðnason Sóttvarnalæknir og Karl G. Kristinsson prófessor í sýklafræði, LSH. Fleiri sérfræðingar á Landspítala og Heilbrigðisstofnun Austurlands hafa verið í baklandinu.
Verkefnið felst í því að:
- Þýða leiðbeiningar um notkun sýklalyfja utan spítala sem unnar hafa verið af sérfræðingum á vegum STRAMA í Svíþjóð, staðfæra þær miðað við stöðu ónæmis bakteríustofna á Íslandi og með tilliti til þeirra sýkalyfja sem skráð eru hérlendis.
- Gefa leiðbeiningarnar út og dreifa til íslenskra lækna auk annarra heilbrigðisstarfsmanna eftir þörfum.
- Kynna þessar leiðbeiningar fyrir læknum í heilsugæslunni og ráðast í gæðaverkefni þar sem lyfjaávísanir verða sóttar í lyfjagagnagrunn Embættis landlæknis áður en átakið hefst og eftir að það hefur staðið nokkurn tíma (ár).
- Gefa læknum endurgjöf þar sem þeir fá hver um sig sínar tölur, sem og viðmiðunartölur fyrir hverja heilsugæslustöð og heilsugæsluna í heild. Stuðla þannig með reglulegri endurgjöf að markvissari notkun sýklalyfja í samræmi við stefnumörkun WHO.
Tilgangur:
Draga úr sívaxandi ónæmi ýmissa bakteríustofna gegn sýklalyfjum með því að bæta notkun sýklalyfja og stuðla að hnitmiðaðri notkun þeirra, þannig að þau haldi gildi sínu og verði áfram virk í meðferð við sýkingum hér á landi.
Markmið:
- Draga úr notkun breiðvirkra lyfja þar sem lyf með þrengra svið geta komið að sömu notum.
- Hætta notkun sýklalyfja þar sem þau gagnast ekki, t.a.m. í veirusýkingum
- Draga úr notkun lyfja sem eru ónæm gagnvart ýmsum stofnum
- Stuðla að markvissri notkun sýklalyfja
Auk þessa styrks til HH má geta þess að í samstarfi við Heilsugæsluna í Árbæ hlaut Miðstöð foreldra og barna styrk til verkefnis um fjölskyldumiðaða nálgun á barneignatíma til að efla geðheilsu ungra barna en Stefanía Birna Arnardóttir, sérfræðingur í fjölskylduhjúkrun á sviði heilsuverndar var umsækjandi. Verkefnið felst í að styrkja (endurmennta) fagfólk heilsugæslunnar til að koma auga á og hefja inngrip á byrjunarstigi vegan vanda ungbarnafjölskyldna.
Fleiri áhugaverð verkefni hlutu styrki og má lesa um þau á vefsíðu Velferðarráðuneytisins.
Á myndinni eru styrkþegar ásamt ráðherra.