Ofbeldi í nánum samböndum - Klínískar leiðbeiningar

Mynd af frétt Ofbeldi í nánum samböndum - Klínískar leiðbeiningar
18.03.2013

Nú hafa verið gefnar út Klínískar leiðbeiningar um mat og fyrstu viðbrögð við ofbeldi í nánum samböndum. Landspítali gefur út en í vinnuhópnum voru einnig fulltrúar frá Háskóla Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þessum leiðbeiningum er ætlað að vera hjálpartæki fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður við greiningu og fyrstu viðbrögð við ofbeldi í nánum samböndum. Markmið þeirra er að auðvelda þolendum að greina frá ofbeldinu svo hægt sé að meta afleiðingar þess á heilsu þeirra og vísa þeim á viðeigandi úrræði eða meðferð.

Með leiðbeiningum sem eru hér á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fylgir bæklingur og flýtispjald. Í bæklingnum eru upplýsingar um úrræði fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum. Flýtispjaldið er til þess að auðvelda notkun leiðbeininganna.

Æskilegt er að þeir sem nota leiðbeiningarnar hafi sótt námskeið um notkun þeirra, hafi þeir ekki hlotið þjálfun í samskiptum við þá sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Boðið verður upp á slík námskeið 9. til 10. apríl og síðar eftir þörfum. Leiðbeinendur á námskeiðunum verða Ástþóra Kristinsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarstjóri Heilsugæslunnar Hvammi; Páll Biering dósent í geðhjúkrun við H. Í. og Valgerður Lísa Sigurðardóttir ljósmóðir á Kvennasvið LSH og klínískur lektor við H. Í. Þeir sem hafa áhuga á slíku námskeiði skulu hafa samband við Pál Biering eða Ástþóru Kristinsdóttur.

Það er von þeirra sem standa að útgáfu leiðbeininganna að þær eigi eftir að gagnast hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum við að greina ofbeldi í nánum samböndum, meta heilsutjón af þess völdum, en síðast en ekki síst til að styðja þolendur slíks ofbeldis og vísa þeim á viðeigandi úrræði.

  • Ofbeldi í nánum samböndum - Klínískar leiðbeiningar og ítarefni