Áhersla Tannverndarvikunnar 2013, 28. janúar til 2. febrúar, verður á mikilvægi og hollustu VATNS.
Í vikunni er fyrirhugað að vekja athygli á kostum þess að velja vatn fram yfir aðra óhollari drykki og skapa jafnframt umræðu um mikilvægi þess að fólk hafi greiðan aðgang að hreinu og góðu drykkjarvatni.
Af þessu tilefni munu leik-, grunn- og framhaldsskólar fá tækifæri til að taka þátt í hugmyndakeppni um mynd sem tengist þessari yfirskrift og verður ein verðlaunamyndanna nýtt í gerð nýs skiltis sem embættið hyggst gefa út næsta haust. Skilafrestur er til 22. mars 2013 og í kjölfarið munu sigurvegarar á öllum þremur skólastigum fá veglega vatnsvél í verðlaun, auk þess sem viðkomandi nemendur/bekkur og skóli mun fá viðurkenningarskjal frá Embætti landlæknis.
Hugmyndasamkeppni - Nýtt vatnsskilti - Upplýsingar og reglur
Setning tannverndarvikunnar verður í leikskólanum Ösp (Iðufelli 16, 111 Reykjavík) mánudaginn 28. janúar 2013 frá kl. 10.00 til 10.30, en börnin munu vera í aðalhlutverki.
Nánari upplýsingar um vatn og tannheilsu má finna á síðunni Tannvernd á vef Embættis landlæknis.