Vöxtur barna
Þyngdaraukningu og vöxt barna þarf að skoða í víðu samhengi. Vöxtur barna stjórnast af mörgum þáttum, meðal annars af erfðum, næringu, hormónum, heilsufari og aðbúnaði. Hvert barn hefur sinn eigin vaxtarhraða. Þegar skimað er fyrir offitu er mikilvægt að meta hraða þyngdaraukningar, þyngdarstöðu foreldra, matarvenjur og félagslegar aðstæður.
Þegar frávik mælast er mikilvægt að hafa í huga mæliskekkjur og skoða hvort rétt hafi verið fyllt í vaxtarlínurit. Endurteknar mælingar eru því mikilvægar þegar grunur vaknar um frávik á vaxtarlínuriti.
Hve þétt er vigtað þarf að meta hverju sinni. Æskilegt er að vigta barnið allt að því einu sinni í viku fyrstu 4 vikurnar eftir fæðingu, en síðan í tengslum við reglubundnar skoðanir í ung- og smábarnavernd. Aukavigtanir eftir þörfum. Barnið skal vigtað án fata og bleiu. Ef barnið þyngist ekki eðlilega samkvæmt vaxtarlínuriti getur verið ástæða til að vigta það oftar og einnig ef einkenni eru um sjúkdóm. Frávik í vexti barns getur gefið vísbendingu um heilsuvanda, sérstaklega á fyrsta árinu.
Offita hjá börnum og unglingum - leiðbeiningar fyrir heilsugæslu