Skiptiborð
Árlega leggjast 5500 börn á aldrinum 0-4 ára inn á sjúkrahús í Evrópu vegna alvarlegra slysa eftir að hafa fallið af skiptiborði. Miklar breytingar hafa orðið á hvernig skiptiaðstöðu foreldrar velja að nota fyrir börnin sín. Megin ástæðan eru tískusveiflur og minna húsnæði. Algengt er í dag að foreldrar noti venjulega kommóðu til að skipta á barninu með því að leggja skiptidýnu ofan á hana. Þetta er mjög hættulegt og ættu foreldrar aldrei að skipta á barninu sínu á þennan hátt þar sem engar hliðar eru til að vernda barnið gegn falli.
Mikilvægt er að skiptiborð standist gildandi staðal EN 12221.
- Sum skiptiborð þarf að festa við vegg og það þarf að gera það samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda. Flest skiptiborð eru frístandandi og öruggast er að koma þeim fyrir upp við vegg. Gæta skal að því að engar hættur séu nálægt skiptiborðinu sem barnið getur komist að s.s. miðstöðvarofn, lausar gardínusnúrur, rafmagnssnúrur og fleira.
- Leggja þarf áherslu á að foreldrar hafi allt sem þarf að nota við höndina áður en byrjað er að skipta á barninu. Mikilvægt er að foreldrar hætti að nota skiptiborð þegar erfitt er að halda börnum kyrrum. Dæmi er um mörg alvarleg slys við þessar kringumstæðum þrátt fyrir að foreldri væri við hlið barnsins.
- Til eru kommóður sem eru einnig skiptiborð en þetta er sérhannaður búnaður sem þarf að standast staðal fyrir kommóður og skiptiborð. Þetta er kommóða sem hefur ramma ofan á (hliðar til að verja barn gegn falli). Mikilvægt er að foreldrar lesi leiðbeiningar um hvernig þessi búnaður skuli notaður þar sem festa þarf kommóðuna við vegg til að koma í veg fyrir að hún falla fram fyrir sig.
- Framleiddir eru bakkar (toppur á skiptiborði) sem eru seldir til að festa ofan á venjulegar kommóður en framleiðandi þarf að láta fylgja upplýsingar með þessum búnaði fyrir hvaða kommóður þetta er framleitt og hafa staðist prófun. Foreldrar ættu aldrei að nota þennan búnað nema á kommóður sem eru upptaldar í leiðbeiningum.
- Það er í fullkomlega í lagi að skipta á barni á á gólfinu. Einnig er í lagi að leggja skiptidýnu á miðju fullorðins rúmsins þannig að ef barnið veltir sér þegar verið er að skipta á því þá fellur það ekki niður á gólf.
Myndband um öryggi á skiptiborðinu á Heilsuveru