Heilbrigt samband við mat
Heilbrigt samband við mat er ekki síður mikilvægt en næringin sjálf og því þarf að vanda alla umræðu um mataræði og næringu. Góð og fjölbreytt fæða skiptir máli fyrir heilsuna og er nauðsynleg fyrir alla, óháð holdafari. Það er líka mikilvægt að huga að áhrifum matar á líðan, því það skiptir ekki bara máli hvað við borðum, heldur hvernig og með hvaða hugarfari.
Þetta örnámskeið um heilbrigt samband við mat inniheldur fjögur myndbönd, sem er hvert um sig 4-6 mínútur, auk fylgiskjala.
Hlekkinn að undirsíðunni má afrita og senda skjólstæðingum þannig að þeir nálgist erindin inni á heimasíðu ÞÍH. Einnig má afrita textann á undirsíðunni og hlekkina að myndböndunum en þá þarf að hlaða fylgiskjölunum niður og senda sem viðhengi.
Þjálfun svengdarvitundar
Þegar unnið er að því að taka upp heilbrigðari matarvenjum getur hjálpað að beita meðferð sem snýst um að þjálfa svengdarvitund. Þessa aðferð þróaði bandaríski sálfræðingurinn dr. Linda Craighead með samstarfsfólki sínu. Bók hennar Appetite awareness training hefur verið þýdd á íslensku og heitir Þekktu þitt magamál.
Algengt er að fólk einblíni á hvað sé borðað og reyni að breyta eingöngu vali á fæðu þegar taka á upp heilbrigðari matarvenjur en skoði aftur á móti ekki nægilega vel hvernig því líður með breytingarnar og taki ekki eftir skilaboðum frá líkamanum.
Þessi aðferð hentar öllum sem vilja verða sáttari við matarvenjur sínar, hver svo sem þyngdin er. Aðferðin felst í því að æfa sig í að taka betur eftir merkjum líkamans um svengd og seddu; æfa sig í að þekkja þessi merki og hvers vegna við förum að borða. Rauði þráðurinn er aukin meðvitund; meðvitund um hversu södd eða svöng við erum, af hverju við erum að fara að borða og hvernig okkur líður þegar við gerum það.
Þetta örnámskeið um um þjálfun svengdarvitundar inniheldur fjögur myndbönd, sem er hvert um sig 4-10 mínútur, auk fylgiskjala. Hlekkinn að undirsíðunni má afrita og senda skjólstæðingum þannig að þeir nálgist erindin inni á heimasíðu ÞÍH. Einnig má afrita textann á undirsíðunni og hlekkina að myndböndunum en þá þarf að hlaða fylgiskjölunum niður og senda sem viðhengi