Lyfjameðferð við offitu hjá börnum
Algengara er að nota þurfi lyf þegar offita er af gráðu 2 eða hærra en við gráðu 1 offitu. Ríkari krafa er um sterka fjölskyldusögu eða að þegar séu komnir fylgisjúkdómar við lægri gráðu offitu ef hefja á meðferð með lyfjum. Í flestum tilvikum er rétt að bjóða sjúklingi upp á lífsvenju-meðferð í ákveðinn tíma áður en lyfjameðferð er hafin. Sé meðferð hafin er hún oftast til a.m.k. 1-2ja ára.
Metformin (Glucophage)
Verkun: Minnkar glúkósaframleiðslu í lifur, eykur GLP-1, breytir magaflóru og eykur insúlín næmi gegnum áhrif á fitubúskap.
Notist þegar hækkun á glukósa eða insúlíni annars vegar eða fitulifur hins vegar er til staðar. Oftar notað ef sjúklingur er samhliða á geðrofslyfjum.
Skammtur: 1000 mg 2x á dag. Gott getur reynst að byrja á hálfum skammti til að meta verkun og viðkvæmni f. aukaverkunum lyfsins, til dæmis í hálfan mánuð.
Semaglutide (Wegovy/Ozempic)
Verkun: Semaglutide (og systurlyfið liraglutide) er fyrsta lyfið sem hefur bein áhrif inn í seddustjórnunarkerfi líkamans. Það er 94% eins og GLP-1 frá náttúrunni og örvar viðtaka þess. Það er þannig GLP-1 Receptor Agonisti og veldur aukinni seddu, hægir á magatæmingu og margt fleira.
Evrópska lyfjastofnunin (EMA) hefur gefið út ábendingu fyrir notkun semaglutide hjá börnum sem eru 12-18 ára, greinast með offitu og eru orðin 60 kg. Á Íslandi miðast reglur SÍ um niðurgreiðslu við að barn sé með gráðu 2 offitu og í meðferð hjá teymi.
Skammtur: Lyfið er gefið vikulega undir húð. Flestir ná góðum áhrifum á skammtinum 1,0 mg. Meðferð er hafin með 0,25mg í 4 vikur og svo 0,5 mg í 4 vikur. Ef engar meiriháttar aukaverkanir koma fram fer sjúklingur á fullan skammt 1,0mg. Mikilvægt er að hitta sjúklinga á þessum upphafskafla meðferðar, styðja við að inntaka á hollum mat sé til staðar og að hreyfing haldist góð til að vöðvamassi tapist ekki. Endurmat á 2ja mánaða fresti í upphafi meðferðar styður við meðferðina.
Liraglutide (Saxenda)
Systurlyfið semaglutide hefur nema í örfáum undantekningatilvikum tekið við af liraglutide. Virkar eins. Gefið daglega undir húð. Algengur skammtur er 3,0mg.