Sérnám í heimilislækningum er elsta sérnámið hérlendis, fyrstu nemarnir byrjuðu 1995 og nokkrum árum síðar kom kennslustjóri til starfa við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og byrjað var að vinna eftir því skipulagi sem sérnámið er byggt á í dag.
Í upphafi var námið hugsað sem 3ja ára nám á Íslandi með framhaldi erlendis. Nú er boðið uppá 5 ára nám hérlendis en sum taka samt sem áður hluta námsins erlendis meðal annars í Svíþjóð.
Í ágúst 2023 var gefin út reglugerð númer 856/2023 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Í reglugerðinni er lögð áhersla á ramma um sérnámið og að það fari fram samkvæmt marklýsingu þar sem kveður á um inntöku, innihald, fyrirkomulag og lengd náms og einstaka námshluta, gæðakröfur, handleiðslu og hæfismati
Marklýsing Félags íslenskra heimilislækna er sá grunnur sem sérnámið byggir á og segir til um þær kröfur sem gerðar eru til sérgreinarinnar og lækna í sérnámi í heimilislækningum.
Í sérnáminu er gert ráð fyrir einstaklingsmiðuðu námi með stuðningi, handleiðslu og eftirliti þannig að sérnámslæknir nái að tileinka sér þá þekkingu, færni, viðhorf og skilning sem marklýsingin kveður á um