Háþrýstingur

Klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð

Inngangur

Þótt framfarir síðustu áratuga hafi fært mannkyni trausta þekkingu og gagnreynd og aðgengileg úrræði til að lækka blóðþrýsing án alvarlegra aukaverkana er háþrýstingur enn gríðarstórt vandamál. Þekking og gagnreynd úrræði eru stórlega vannýtt víðast hvar í heiminum og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er vangreindur og vanmeðhöndlaður háþrýstingur eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Að sama skapi eru bætt greining og öflugri meðferð háþrýstings auk forvarnarstarfs meðal stærstu tækifæra til betri heilbrigðisþjónustu og heilsu. Háþrýstingur er áhættuþáttur hjarta-, nýrna- og heilasjúkdóma osg sýnt hefur verið fram á að lækkun hækkaðs blóðþrýstings hamlar gegn öllum þessum stóru sjúkdómum nútímans, kransæðasjúkdómum, hjartabilun, alvarlegum hjartsláttartruflunum, heilablóðföllum, heilabilun og langvinnri nýrnabilun. 

Hvers vegna gengur ekki betur að nýta alla þá þekkingu, tæki og tól sem eru til að leysa þetta stóra vandamál? Ítarlegar og vandaðar klínískar leiðbeiningar hafa verið gefnar út, bæði austan hafs og vestan, sem allar leggja áherslu á að herða róðurinn, bæta greiningu, meðferð og eftirlit með háþrýstingssjúklingum. Á vissum sviðum er þó áherslumunur. Í þessum klínísku leiðbeiningum, sem af ásetningi eru stuttar og knappar er markmiðið að draga saman aðalatriði málsins en að sjálfsögðu er einnig vísað til mun ítarlegri umfjöllunar margra virtra og alþjóðlegra aðila, og til umræðu sem hefur fjallað um mismunandi tillögur og rýnt mismunandi áherslur og ágreiningsmál.

Fyrirvari

Klínískar leiðneiningar eru almenn viðmið til stuðnings við greiningu og meðferð sjúkdóma. Einstaklingsmiðað læknisfræðilegt mat á þó við í hverju tilviki þar sem tekið er mið af aðstæðum hvers sjúklings.

 

 


Klínískar leiðbeiningar á .pdf formi með heimildum og höfundum