Áhyggjur foreldra af málþroska, heyrn, fínhreyfingum, hegðun (m.a. athygli) og almennri þroskaframvindu eru þættir sem spá fyrir um raunveruleg vandamál barna. PEDS Mat foreldra á þroska barna (Parents´ Evaluation of Developmental Status) er spurningalisti sem fær foreldra til að lýsa yfir áhyggjum sínum eða áhyggjuleysi varðandi þroska, heilsu eða hegðun barna sinna.
Við fyrirlögn PEDS svara foreldrar tíu spurningum um þroska og hegðun barna sinna og tekur um fimm mínútur að svara listanum. Á grundvelli svara foreldranna tekur það fagmann aðeins að jafnaði um tvær mínútur að færa stigin inn á stigablaðið, nota PEDS túlkunarblaðið til að lesa úr niðurstöðum og ákvarða næstu skref.