Lyfjafræðileg umsjá

Undanfarna áratugi hefur aðferðafræði lyfjafræðilegrar umsjár verið að festast í sessi meðal lyfjafræðinga um allan heim.

Hugtakið lyfjafræðileg umsjá er skilgreind þjónusta sem lyfjafræðingur veitir sjúklingi. Hún felst í því að lyfjafræðingur skilgreinir markmið lyfjameðferðar og lyfjanotkunar fyrir sjúkling og leitar bestu leiða til að ná þeim markmiðum.  Þetta gerir lyfjafræðingur með því að fara yfir allar lyfjaávísanir sjúklings með það fyrir augum að fá yfirsýn yfir öll lyfjaefni, samverkanir þeirra, auka- og milliverkanir. Jafnframt að meta árangur lyfjameðferðarinnar sem og framvindu og hvort markmiðum meðferðar er náð. 

Lyfjafræðingur skoðar auk lyfseðilsskyldra lyfja ýmis fæðubótarefni, náttúru- og lausasölulyf.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að lyfjafræðileg umsjá hefur heilsuverndandi áhrif, auk þess sem þessi þjónusta hefur fjárhagslegan ávinning sem og jákvæð áhrif á lífsgæði. 

Bandaríkin, Kanada og Bretland eru dæmi um lönd sem nýtt hafa sér lyfjafræðinga í samvinnu við heimilislækna til að draga úr lyfjatengdum vandamálum sjúklinga. Lyfjafræðingum sem starfa með heimilislæknum í Bretlandi hefur fjölgað undanfarin ár og er ráðgert að árið 2020-2021 muni 1500 lyfjafræðingar bætast við þá 490 lyfjafræðinga sem nú þegar starfa á 650 heimilislæknastofum víðsvegar um landið.

Hér má sjá innlenda rannsókn sem framkvæmd var á Heilsugæslunni í Garðabæ:

Lyfjafræðileg umsjá.pdf