Ljósmæðranám

Umsjón með klínísku námi ljósmæðra hjá HH hafa 

Karitas Ívarsdóttir og 

Ragnheiður Bachmann 

ljósmæður á ÞÍH.


Ljósmóðurfræði er 120 eininga, fræðilegt starfstengt nám á meistarastigi við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar um námið er að finna á vef Háskóla Íslands.

Á fyrra námsári er hverjum nemanda úthlutað plássi á heilsugæslustöð og neminn fær sína klínísku þjálfun í meðgönguvernd á þeirri stöð út námstímann. Nemandi er á sama tíma í starfsþjálfun á öðrum heilbrigðisstofnunum þar sem fæðingarhjálp á sér stað. Auk þess vinna nemendur í heimahúsum undir leiðsögn ljósmæðra. 

 

Allar heilsugæslustöðvar hjá HH taka við nemum í ljósmóðurfræði. Nemendur eru á stöðvunum ákveðna daga í hverri viku þannig að þeir kynnist konunum/verðandi foreldrum og fylgi þeim eftir eins og kostur er. 

Í klínískri þjálfun á heilsugæslustöðvum er lögð áhersla á að nemendur kynnist hugmyndafræði heilsugæslunnar og því hvernig þjónusta ljósmæðra fellur að heilsuvernd.

Meðal annars er gert ráð fyrir að nemandi öðlist færni í að:

  • meta og greina einstaklingsbundnar þarfir og óskir kvenna og fjölskyldna þeirra.
  • meta andlega líðan kvenna á meðgöngu og þekkja meðferðarúrræði heilsugæslunnar.
  • meta og greina meðgöngulengd, vöxt fósturs, fósturhjartslátt og legu.
  • greina frávik frá eðlilegri meðgöngu og þekkja leiðir til að bregðast við þeim.
  • veita upplýsingar um tilgang og skipulag mæðraverndar þ.m.t. þau skimpróf og rannsóknir sem standa konum/verðandi foreldrum til boða á meðgöngu.
  • veita fræðslu um meðgöngu, fæðingu, brjóstagjöf og foreldrahlutverkið.
  • skrá mat á árangri og meðferð.