Heilbrigði tanna skiptir máli fyrir almenna heilsu og vellíðan fólks á öllum aldri

Heilbrigði tanna skiptir miklu máli fyrir almenna heilsu og vellíðan fólks og fleiri halda eigin tönnum lengur. Með hækkandi lífaldri fækkar tönnunum en ákveðinn lágmarksfjöldi eigin tanna í hvorum gómi, sem miðast við 10 tennur, tryggir alla jafna viðunandi tyggingafærni og tjáningu. 

Tæplega 50% Íslendinga á aldrinum 65-79 eru í dag með 10 eða fleiri tennur í hvorum gómi samanborið við tæplega 20% árið 2000.

Hafa í huga

Góð munnhirða er nauðsynleg þegar aldurinn færist yfir en samhliða hækkandi aldri getur færnin til að sinna eigin munnhirðu minnkað.

Tannhirða fullorðinna

Vönduð tannhirða er lykillinn að því að tennurnar endist ævina út. Þetta er ekkert flókið.

  • Bursta tennur kvölds og morgna
  • Hreinsa milli tanna einu sinni á dag

Gakktu úr skugga um að þú notir réttu handtökin:

Tannhirða fullorðinna 

Tannhirða tanngerva 

Tannhirða sjúklinga


Með hækkandi lífaldri eru vandamál tengd tönnum oftar en áður til staðar hjá eldra fólki og tannvernd því afar nauðsynleg; en tannvernd snýst fyrst og fremst um góða munnhirðu, hollar neysluvenjur, notkun flúors/klórhexídíns og reglulegt eftirlit tannlæknis.
Góð munnhirða er nauðsynleg þegar aldurinn færist yfir en samhliða hækkandi aldri getur færnin til að sinna eigin munnhirðu minnkað. Laus eða föst tanngervi t.d. partar, krónur, brýr og tannplantar kalla á vandasamari þrif og þeir sem þarfnast umönnunar verða að geta treyst því að heilbrigðisstarfsfólk kunni réttu handtökin við munnhirðu og búi yfir nauðsynlegri þekkingu til að gefa góð ráð varðandi munnhirðu og tannvernd.

Sjúkratryggingar taka þátt í greiðslu vegna tannlækninga lífeyrisþega. Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku er að lífeyrisþegar séu skráðir hjá heimilistannlækni. Hægt er að skrá sig hjá heimilistannlækni í Réttindagátt- mínar síður eða hjá tannlækninum. Einstaklingar sem fóru til tannlæknis eftir janúar 2017 eru nú þegar skráðir hjá viðkomandi tannlækni.

Sjá nánar á vef Sjúkratrygginga Íslands https://island.is/tannlaekningar